Á vettvangi stjórnmálanna bíða mörg verkefni sem varða hag landsmanna allra. Við þurfum að hvetja einstaklinga til dáða og virkja þannig einkaframtakið í meira mæli um leið og við bætum hag fólks, styrkjum innviði landsins, hugum að umhverfinu og eflum heilbrigðisþjónustu. Fyrst og fremst þarf að sækja tækifærin og þar eiga stjórnvöld að ryðja hindrunum úr vegi.
Endurnýjum forystuna í Suðurkjördæmi
Ég gaf kost á mér eftir áskoranir sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi sem töldu að það þyrfti að efla forystu flokksins í kjördæminu og vildu fá öfluga konu í framboð. Þeirri áskorun tók ég enda vil ég vinna fólkinu í Suðurkjördæmi gagn sem og öðrum landsmönnum. Undanfarnar vikur hef ég ferðast vítt og breitt um Suðurkjördæmi og notið þess að hitta fólk og kynnast fjölbreyttri atvinnustarfsemi í kjördæminu. Ég er þakklát fyrir góðar viðtökur hvert sem ég kem, góð samtöl, ábendingar og hvatningu. Það er gott veganesti inn í framtíðina.
Öflugt atvinnulíf, fleiri störf
Það má með sanni segja að tækifærin séu víða og mun ég sannarlega leggja mig fram um að sækja þau. Suðurkjördæmi er matarkista Íslands, til sjávar og sveita. Með nýsköpun hafa orðið til öflug fyrirtæki á svæðinu og ferðaþjónustan hefur alla burði til þess að verða aftur blómleg í kjördæminu. Af mörgu er að taka. Ég mun tala máli atvinnulífsins enda verða verðmætin til þar svo hægt sé að standa undir þeim lífsgæðum sem við þekkjum og viljum búa við. Með öflugu atvinnulífi verða líka til fleiri störf sem við þurfum á að halda núna.
Einkarekstur frá fyrstu hendi
Þetta þekki ég vel enda er ég alin upp við einkaframtakið og einkarekstur fjölskyldunnar. Það veit ég að verðmætin verða ekki til af sjálfu sér. Því til viðbótar hef ég setið í stjórnum margra fyrirtækja og samtaka. Um árabil var ég í forystu iðnaðar og atvinnulífs sem formaður Samtaka iðnaðarins og átti þá sæti í stjórn Samtaka atvinnulífsins. Ég sit í stjórn Háskólans í Reykjavík og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Þá yfirgripsmiklu reynslu sem ég hef öðlast í atvinnulífinu og af einkarekstri vil ég nýta til að styrkja atvinnulíf í Suðurkjördæmi og leggja mín lóð á vogarskálarnar til að sækja þau fjölmörgu tækifæri sem bjóðast. Ég hvet sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi til að veita mér brautargengi í prófkjörinu nk. laugardag og velja mig sem oddvita listans. Það er mitt markmið að efla mannlíf og atvinnulíf í kjördæminu og byggja á víðtækri reynslu minni úr atvinnulífinu. Að lokum vil ég þakka fyrir stuðninginn og þá hvatningu sem ég hef fengið.
Kommentare