top of page

Fjöður verður að fimm hænum

Fréttablaðið sló því upp á forsíðu 24. febrúar síðastliðinn að formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis telji koma til greina að „selja stóran hlut í Landsvirkjun“. Í framhaldinu skapaðist umræða um málið, sem er hið besta mál. En þegar ég nú les á samfélagsmiðlum og heyri út undan mér fullyrðingar um að Guðrún Hafsteinsdóttir vilji „selja Landsvirkjun og einkavæða hana“ er ástæða til að staldra við og ítreka fáein atriði.

Ég viðraði fyrst þá skoðun opinberlega fyrir um tveimur árum að til greina kæmi að ríkið seldi lífeyrissjóðum landsins 30-40% hlut í Landsvirkjun en með ströngum skilyrðum. Þá var ég formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða og varpaði hugmyndinni fram sem innleggi mínu í umræður um langtímafjárfestingar lífeyrissjóða á Íslandi. Eignarhald fyrirtækisins yrði þannig áfram hjá almenningi.

Hvorki þá né nú er ég þeirrar skoðunar að Landsvirkjun verði seld, enda var ég þá og er enn algjörlega andvíg því að þetta lykilfyrirtæki í orkuframleiðslu landsmanna verði einkavætt. Það er klárt og skýrt!

Það eina sem fyrir mér vakti á sínum tíma, sem og nú, var að hugsa upphátt, velta fyrir mér hvort minnihluti í Landsvirkjun gæti ekki verið álitlegur kostur til að gera tvennt: annars vegar að ríkið innleysti fjármuni til að nýta í bráðnauðsynlega innviðauppbyggingu og hins vegar að gefa lífeyrissjóðum færi á stórri og álitlegri fjárfestingu í almannaþágu hérlendis. Enda er þörf á umsvifamiklum fjárfestingakostum fyrir sístækkandi lífeyriskerfi. Hvort tveggja hugsað með hagsmuni fólksins í landinu að leiðarljósi, enga aðra.

Svo get ég bætt því við að þessar vangaveltur tengjast auðvitað þeirri lífsskoðun minni að óhætt sé og nauðsynlegt að spyrja spurninga um hlutverk ríkisins í atvinnurekstri yfirleitt. Það hef ég margsinnis gert undanfarin ár, líka í kosningabaráttunni í fyrra. Oft hef ég nefnt heilbrigðiskerfið og hvatt til þess að ríkið virði í verki einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni og stuðli að samvinnu ríkisfyrirtækja og einkafyrirtækja, landsmönnum til góðs. Nærtækt er að nefna samstarf af því tagi sem blessunarlega tókst að koma á í COVID-faraldrinum og skilaði ómældum árangri í baráttu gegn veirunni.

Grunnkerfi samfélagsins eigum við að reka saman, hvort heldur varðandi orku, heilbrigðisþjónustu eða menntun, svo dæmi séu tekin. Á öllum þessum sviðum er hins vegar einkarekstur líka við lýði og á að vera. Hins vegar getum við og eigum að velta fyrir okkur hvernig og hvort ríkið yfirleitt eigi að koma að áfengissölu, fjölmiðlarekstri, útgáfu námsbóka og slíku. Sú umræða er þörf en bíður betri tíma. Tilefni skrifanna nú er fyrst og fremst að koma því á framfæri að Landsvirkjunarfjöðrin mín varð að tilefnislausu að fimm hænum í umræðunni.


Höfundur er þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis


Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 1. mars 2022

Comments


bottom of page