Það blasir orðið við að stofna verði á ný sjálfstæðan garðyrkjuskóla á Reykjum í Ölfusi til að ljúka seinni tíma óvissu- og raunasögu Garðyrkjuskóla ríkisins sem starfað hafði sjálfstætt frá stofnun 1939, en sameinaðist Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2005.
Við sameininguna fór að fjara undan innviðum starfsmenntanáms í garðyrkju á Reykjum og nú er svo komið að þetta skólaár gæti orðið hið síðasta í yfir 80 ára sögu skólahalds á þessum stað. Starfsfólki fækkar, húsakosti er ekki haldið við og fleiri feigðarmerki í starfseminni blasa við. Sögulokin skrifa sig sjálf haldi svo fram sem horfir.
Ætlum við að láta þetta gerast þegjandi og hljóðalaust?
Garðyrkjubændur og hagsmunasamtök garðyrkjunnar vöruðu á sínum tíma við afleiðingum sameiningarinnar fyrir 16 árum. Því miður hafa öll þeirra varnaðarorð gengið eftir.
Núverandi menntamálaráðherra ákvað svo að taka mark á sjónarmiðum Sambands garðyrkjubænda og margra fleiri og færa starfsmenntanám í garðyrkju og skyldum greinum frá Landbúnaðarháskólanum til Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Og hvað svo? Spyr sá er ekki veit. Ekkert er að frétta af fyrirhuguðu fyrirkomulagi garðyrkjunáms í ranni Fjölbrautaskólans og að því er ég best veit hefur hvorki verið leitað ráða hjá forystusveit garðyrkjubænda né sérfræðinga á Reykjum í málefnum garðyrkjunáms. Slík sniðganga væri hreinlega óhugsandi ef í hlut ættu aðrar iðn- og starfsmenntagreinar. Það fullyrði ég.
Samráði ábótavant
Það var greinilegt á viðbrögðum stjórnenda Fjölbrautaskóla Suðurlands að þar hafi samráði í aðdraganda ákvörðunar verið ábótavant.
Ég sé fyrir mér að í endurreistum, sjálfstæðum garðyrkjuskóla á Reykjum verði sérhæft iðn- og starfsmenntanám í garðyrkju og tengdum greinum á framhaldsskólastigi, endurmenntun og námskeið fyrir fagfólk og almenning, rannsóknir og tilraunir í samstarfi við háskóla og stofnanir. Garðyrkjuskólinn gæti auðvitað átt náið samstarf við til dæmis Fjölbrautaskóla Suðurlands um fræðslu í umhverfismálum í víðu samhengi og fleira.
Garðyrkjan þarf á fagskóla að halda og grænn lífsstíll kallar sömuleiðis eftir því að garðyrkjunám á Reykjum verði styrkt og eflt en ekki að horft sé upp á að stoðirnar þar bresti og staðurinn grotni niður.
Við skulum ekki eyða tíma í að velta okkur upp úr þeirri staðreynd að sameining Garðyrkjuskóla ríkisins og Landbúnaðarháskólans mistókst á sínum tíma og var misráðin eins og að henni var staðið. Lærum því af reynslunni og tryggjum að kjarnastarfsemi garðyrkjunáms á framhaldsskólastigi verði áfram á Reykjum. Rætur námsins og skólans eru á Reykjum og þar verður best tryggð farsæl framtíð garðyrkjumenntunar í landinu.
Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 21. september 2021
Commentaires