Nú styttist óðfluga í sveitarstjórnarkosningar, en kosið verður þann 14. maí næstkomandi. Við Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi göngum spennt til þessarar kosninga, bæði til þess að halda núverandi meirihlutum í kjördæminu sem og að tryggja nýja.
Þessa dagana eru mörg Sjálfstæðisfélög að funda til að komast að niðurstöðu um fyrirkomulag framboðslista flokksins. Rík hefð er fyrir prófkjörum innan Sjálfstæðisflokksins. Það er að mínu mati ein lýðræðislegasta leið sem hægt er að fara. Hvort sem farið verður í prófkjör eða uppstillingu þá vil ég hvetja þig til þátttöku með eigin framboði eða að kjósa í prófkjörum þar sem þau verða.
Á þessu kjörtímabili sem senn er á enda runnið höfum við upplifað gríðarlega uppbyggingu í mörgum sveitarfélögum um allt kjördæmið. Íbúafjölgun hefur verið mikil sem og atvinnuuppbygging. Gríðarlegur fjöldi fólks hefur flutt sig frá höfuðborgarsvæðinu í rólegri og fjölskylduvænni sveitarfélög og fögnum við nýjum íbúum í kjördæminu.
Góð sveitarfélög eru byggð upp af öflugu og góðu fólki sem lætur sig málin varða. Hvernig viljum við hafa skólana okkar? Er lögð áhersla á atvinnumál? Hvernig tryggjum við okkar eldri íbúum áhyggjulaust ævikvöld? Er aðstaða til íþróttaiðkunar góð? Hvernig viljum sjá byggðina okkar þróast? Hvernig samfélagi viljum við búa í? Þessi umhugsunarefni sem og ótalmörg önnur verða fyrirferðarmikil í kosningunum í vor. Ef að þú hefur áhuga á að móta þitt samfélag og hafa áhrif á þróun þess vil ég hvetja þig til að taka þátt og láta þig málin varða.
Það er eflaust ekki til betri leið til að taka þátt í mótun samfélagsins en að taka þátt starfi Sjálfstæðisflokksins. Við erum 10.000 skráðir Sjálfstæðismenn hér í Suðurkjördæmi og ég veit að ef allir leggja hönd á plóg, íhuga að bjóða sig fram, hvetja aðra til framboðs og kjósa þá munum við uppskera vel í vor.
Núna er tækifærið til þess að að taka þátt og ég hvet þig til þess!
Guðrún Hafsteinsdóttir 1. þingmaður Suðurkjördæmis
Þessi grein birtist í Dagskránni 9. febrúar 2022
Comments