Fyrir rúmri öld störfuðu um 5% landsmanna við verslun og þjónustu en um 95% við landbúnað og sjávarútveg. Á þessum tíma hefur þetta algerlega snúist við og rúmlega það.
Fyrir rúmum hundrað árum má eiginlega segja að landbúnaður og sjávarútvegur hafi haft álíka mikla þýðingu fyrir efnahag landsins. Því er merkilegt að á þeim tíma sem liðinn er hafi Íslendingum tekist að byggja upp einn öflugasta sjávarútveg í heimi og líklega þann arðbærasta.
Sömu sögu er hins vegar ekki að segja af íslenskum landbúnaði. Hvernig stendur á því? Af hverju þaut sjávarútvegurinn áfram en landbúnaðurinn sat eftir?
Íslenskar sjávarafurðir eru á markaði í flestum heimshornum og hafa víða skapað sér sterka stöðu og skarpa ímynd. Danskar landbúnaðarafurðir er að finna í verslunum og veitingastöðum víða um heimsbyggðina, þökk sé vörugæðum og markvissu kynningar- og markaðsstarfi. Íslendingum gengur vel að selja fisk og sjávarfang og Dönum gengur greinilega bærilega að selja afurðir landbúnaðar síns.
Íslensk matvælaframleiðsla hefur alla burði til að eflast og verða jafnframt að hluta arðsöm útflutningsgrein. Það kostaði dugnað, útsjónarsemi í markaðsstarfi og svita við að selja íslenskt sjávarfang erlendis. Íslenskar landbúnaðarafurðir hafa allt með sér til að ná langt líka, lítum bara á árangur frumkvöðla með sölu og framleiðslu skyrs. Og hverjum hefði dottið í hug að íslenskt vatn yrði verðmæt útflutningsvara? Meira að segja Mick Jagger hefur íslenskan vatnsbrúsa úr Ölfusi með sér á svið á tónleikum Rolling Stones.
Til að eiga kraftmikinn landbúnað til framtíðar verður að móta sameiginlega sýn og leggja mikla áherslu á nýsköpun og rannsóknir. Margvísleg sóknarfæri eru fyrir atvinnugreinina og tækifærin leynast víða. Við erum svo gæfusöm Íslendingar að eiga nóg af landi, gnótt af hreinu vatni og hér er loftið hreint og ómengað. Allt eru þetta ráðandi þættir til að byggja upp sterka ímynd fyrir búskap og landbúnaðarframleiðslu. Fólk sækir nefnilega í síauknum mæli í hrein og lífræn matvæli þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi.
Íslenskir bændur verða að leggja aukna áherslu á umhverfis- og heilbrigðismál til að fullnægja kröfum sem neytendur kalla eftir í hraðvaxandi mæli. Tækifærin eru víða en vissar ógnir sömuleiðis. Hér heyrast nú til dæmis raddir um að í mötuneytum skóla eigi ekki að bjóða upp á kjötrétti. Í Noregi er eitt átakaefna í kosningabaráttu vegna Stórþingskosninga í september einmitt það hvort stefna skuli að því að skólamötuneyti verði „græn“, það er að kjöt verði þar ekki lengur á matseðlum.
Íslensk matvælaframleiðsla er á krossgötum. Við viljum eiga bæði öflugan landbúnað og sjávarútveg með tilheyrandi matvælaframleiðslu. Við viljum framleiða hreinar og góðar afurðir sem standast fyllilega samanburð við erlendar vörur. Við viljum sömuleiðis vera sjálfum okkur nóg og spara bæði gjaldeyri og kolefnisspor með því að framleiða sem mest af því sem við neytum hér heima sjálf.
Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu.
Comentarios