„Hvernig dettur þér þetta í hug, Guðrún?,“ er spurning sem ég fæ oft frá fólki sem ég hitti á ferðalagi mínu um okkar ágæta Suðurkjördæmi nú í aðdraganda kosninga. Er þá fólk að vísa til þess að maður er vissulega lítið heima hjá sér, þeytist milli horna kjördæmisins frá morgni fram á nótt í sífelldu áreiti, ys og þys, og þegar heim er komið sér maður hvernig stofublómin fölna sökum hirðuleysis. Blessuð blómin fá þó sitt vatn og sína alúð á endanum.
Svarið við spurningunni er þó jafnan hið sama: Ég er komin til að vinna, takast á við þau verkefni sem þarf, og gefa allt mitt í það. Ég hef alltaf verið dugleg, vön því að vinna mikið og það veitir mér ánægju að sjá afrakstur vinnu minnar. Ef ég get orðið fólki að liði líður mér vel. Það er enda hlutverk okkar sem störfum í stjórnmálum, þess vegna gef ég mig í þetta verkefni.
Ég sé líka orkuna, viljann, spennuna, styrkinn, framsýnina og fegurðina sem býr í fólkinu sem byggir og mótar okkar samfélag í Suðurkjördæmi. Hér er allt til staðar til að okkur geti gengið vel. Það er svo undir okkur sjálfum komið að sjá til þess að svo fari. Til að okkur takist ætlunarverk okkar þurfum við kjölfestu í stað glundroða, stefna ótrauð áfram og tryggja öllum stöðugleika, festu og frelsi til athafna. Þetta er leiðin til árangurs.
Ég hef sagt við fólk að ég vilji sjá nærsamfélagið fá meira vægi í ákvarðanatöku um hvernig hlutirnir þróast heima fyrir. Fólkið í héraðinu lúti ekki boðvaldi ríkisins í málum sem stendur því nærri, svo sem í þjónustu heilbrigðisstofnana, menntamálum, þróun atvinnuuppbyggingar, skipulagsmálum svo fátt eitt sé nefnt.
Hættan er sú að þeir stjórnmálaflokkar sem hallir eru undir miðstýringu komi sér fyrir við stjórn landsmála og blási út kerfi sem þrengir að hugmyndaríku og duglegu fólki með reglugerðafargani og ofurskattheimtu. Slíkt er ekki líklegt til árangurs og hugmyndafræðin á bakvið þannig stjórnarhætti situr á ruslahaugum sögunnar.
Verkefnin framundan kalla á sterka leiðtoga, traust í samstarfi og trúverðugleika í orðum og athöfnum. Ég er komin á svið stjórnmálanna til að láta til mín taka. Ég finn velvild og traust hjá fólkinu sem ég hef hitt á förnum vegi og ég ætla mér að standa undir því trausti og vel það.
Ég ætla mér líka, í samvinnu við kjósendur og Sunnlendinga alla að efla og styrkja stöðu Suðurkjördæmis strax á komandi kjörtímabili, vinna landinu okkar gagn og útbúa frjóan jarðveg til framtíðar, íslenskri þjóð til farsældar og heilla.
Ég biðla til þín að taka þátt í þessari vegferð með mér með því að setja x við D á kjördag.
Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi
Þessi grein birtist í Dagskránni 22. september 2021
Komentarji