top of page

Með iðnaði skal Ísland byggja

Þau ár sem ég gegndi stöðu formanns Samtaka iðnaðarins reyndi ég að ýta undir mikilvægi þess að íslenskur iðnaður og störf iðnaðarmanna nytu þeirrar virðingar sem greinin og þeir sem starfa við hana eiga skilið.


Um tíma var eins og íslenskt samfélag villtist af leið. Mér fannst örla á að litið væri niður á iðnmenntun. Það sætir furðu, því iðnaðurinn átti hvað stærstan þátt í að brjóta Ísland út úr hlekkjum hokurs og fátæktar. Án þeirrar byltingar sem kennd er við iðnaðinn hefði Ísland ekki náð þeirri velsæld sem raun ber vitni.


Sú var tíðin að landsmenn litu mjög upp til iðnaðarmanna. Mér fannst það einkenna tíðarandann á árum áður. Með batnandi hag landsmanna jókst hins vegar áherslan á bóknám. Möguleikar iðnmenntaðra einstaklinga til áframhaldandi náms voru á sama tíma skertir, t.d. með því að líta ekki á gráður iðnaðarmanna sem farmiða í háskóla, ólíkt stúdentsprófum. Frægt og umdeilt dæmi sem rataði í fjölmiðla á sínum tíma var þegar maður með sveinspróf fékk ekki inngöngu í lögreglunám við háskóla hérlendis þar sem hann hafði ekki lokið stúdentsprófi.

Ég held við verðum að líta svo á sem samfélagið og yfirvöld hafi farið offari í því að senda yngstu kynslóðum okkar þau skilaboð að lykillinn að farsæld fælist í bóknámi og einungis bóknámi. En nú hyllir undir breytta tíma. Tíma aukinnar sanngirni. Tíma nýs gildismats. Búið er að samþykkja frumvarp menntamálaðaráðherra um að starfsnám sé gilt aðfaranám inn í háskóla. Mig langar að þakka öllum sem lagt hafa þeirri baráttu lið.


Á sama tíma og ég fagna þessu skrefi langar mig að minna á að Íslendingar mega aldrei missa sjónar á mikilvægi þess að börnin okkar fái að kynnast fjölbreyttum starfsnámsgreinum i grunnskóla. Um 80% grunnskóla uppfylla ekki lágmarksskyldu námskrár um verklega kennslu. Þessu þarf að kippa í liðinn og ekki seinna en strax.

Tryggjum börnunum okkar aukið valfrelsi. Gerum á sama tíma samfélagið okkar að öruggari, sjálfbærari og betri stað. Hættum að tala iðnnám niður. Spyrjum frekar hvort hið mikla brottfall sem einkennir framhaldsskóla hér á landi eigi e.t.v. rætur í því að enn sé þrýst á nemendur að velja sér nám sem ekki hentar þeim. Staða drengja kann að vera sérstakt áhyggjuefni í þessu samhengi.


Með iðnaði skal Ísland byggja. Íslenskur iðnaður á skilið að við gerum honum hærra undir höfði.


Guðrún Hafsteinsdóttir


Höfundur sækist eftir 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Kommentarer


bottom of page