top of page

Staða samgangna til og frá Vestamanneyjum er ekki boðleg!

Ég tel mig knúna til að ávarpa hér þá grafalvarlegu stöðu sem er í samgöngumálum Vestamannaeyja.


Það voru margir Eyjamenn sem hlökkuðu mikið til í síðustu viku enda haustfrí í skólum að hefjast og margir hugðu á ferðalög og langa helgi. Börnin hlupu heim úr skólanum á fimmtudag full eftirvæntingar enda ætluðu margir upp á land sama dag.


En þegar síst skyldi bilaði Herjólfur og siglingar lágu niðri. Eina tenging íbúa Vestmannaeyja við fastalandið bilaði og enginn komst lönd né strönd.


Þetta er ekki flókið. Samgöngur til og frá Vestamanneyjum eru ekki boðlegar eins og staðan er. Nú er siglt á gamla Herjólfi enda sá nýji farinn í slipp. Sá gamli ristir dýpra og því ekki hægt að sigla honum með sama hætti og þeim nýja og því fjölgar ferðunum nú í Þorlákshöfn og til að bæta gráu ofan á svart að þá er ekkert áætlunarflug í boði lengur.


Ekkert áætlunarflug hefur verið til Eyja síðan í lok maí á þessu ári. Innviðaráðuneytið styrkti flugið en telur ekki lengur forsendur til að gera það áfram.


Virðulegi forseti!

Við þekkjum öll sérstöðu Vestmannaeyja. Það er lágmarkskrafa íbúa eyjanna að það séu öruggar samgöngur til og frá eyjunum.


Helst myndi maður vilja sjá reglulegt flug einhverja daga í viku og bind ég miklar vonir við að innan tíu ára verðum við farin að fljúga til eyja á rafmagni. EN Nú þarf að bregðast við og ég skora á Vegagerðina að gera áætlun um viðbrögð þegar ekki er hægt að sigla í Landeyjarhöfn. Það mætti hugsa sér að varaplanið væri að þá myndi flug taka við. Með öðrum orðum þegar Skipið siglir ekki í Landeyjarhöfn að þá er gripið inn í með flugi þann tíma sem höfnin er úti.


Þessi ræða var flutt á Alþingi 19. október 2022


Guðrún Hafsteinsdóttir

1. þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.




bottom of page