top of page

Valdefling launafólks

Updated: Oct 26, 2022

Nýlega mæltu 11 þingmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir frumvarpi um vernd félagafrelsis á íslenskum vinnumarkaði. Markmið frumvarpsins er að tryggja launafólki frelsi til þess að velja sér stéttarfélag eða eftir atvikum að standa utan slíkra félaga. Andstæðingum frumvarpsins hefur tekist að finna því allt til foráttu og ekkert til sparað í digurbarkalegum yfirlýsingum um afleiðingar þess ef frumvarpið yrði að lögum og því haldið fram að það fæli í sér dauðadóm yfir verkalýðshreyfingunni.


Ófrumlegur Sjálfstæðisflokkur


Miðað við viðbrögð þeirra mætti halda að frumvarpið fæli í sér nýjar, róttækar og algerlega óþekktar breytingar sem ekki þekkist á byggðu bóli. Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í gegnum tíðina margoft lagt fram djarfar og framsæknar lagabreytingar til verndar réttindum fólks er það því miður ekki raunin í þessu tilviki. Frumvarpið snýr eingöngu að því að veita launafólki á Íslandi sömu réttindi og launafólki annarra landa og tryggja félagafrelsinu sambærilega vernd og það nýtur annars staðar á Norðurlöndunum. Róttæknin og frumleiki Sjálfstæðisflokksins er ekki meiri en svo að frumvarpið er að mestu leyti byggt á dönsku lögunum um félagafrelsi á vinnumarkaði sem lögfest voru í Danmörku árið 2006 til að bregðast við áfellisdómi frá Mannréttindadómstól Evrópu í máli Sørensens og Rasmussens gegn Danmörku sem féll sama ár. Þá hefur Evrópunefndin um félagsleg réttindi margoft tekið fram í ályktunum sínum að forgangsréttarákvæði í íslenskum kjarasamningum feli í sér brot gegn félagafrelsinu. Forgangsréttarákvæði eru ákvæði kjarasamninga sem veita félagsmönnum tiltekins stéttarfélags forgang til ákveðinna starfa, hvort sem er við ráðningu eða uppsögn. Í frumvarpinu er brugðist við því og eru slík ákvæði gerð óheimil.


Ómerkilegt frelsi?


Andstæðingar frumvarpsins hafa gefið lítið fyrir félagafrelsið, rétt eins og kom fram í ræðu Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, þar sem fram kom að í skyldu ófélagsbundinna launamanna til greiðslu félagsgjalda og forgangsréttarákvæði kjarasamninga væri ekki mismunun sem hann hefði „gríðarlegar áhyggjur af“. Þeirri afstöðu verð ég að vera eindregið ósammála, enda tel ég alla mismunun og sérstaklega þá sem gengur gegn mannréttindaákvæðum vera í eðli sínu eitthvað til að hafa gríðarlegar áhyggjur af.



Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 25. október 2022

Comments


bottom of page