Sílikon dalur nefnist þekkt landsvæði í Norður Kaliforníu. Í fyrstu vegna framleiðslu á kísilflögum, en nú vegna hátækni.
Þarna var í raun allt gert úr engu, því þótt margir góðir háskólar væru í grenndinni fluttist ungt fólk í burtu að lokinni menntun. Störfin voru ekki til staðar. Þangað til Frederick Terman, prófessor við Stanford, lagði fram áætlun um að nemendur fengju áhættufjármagn gegn því að þeir yrðu um kyrrt á svæðinu að lokinni skólagöngu. William Hewlett og David Packard stofnuðu fyrsta hátæknifyrirtæki svæðisins árið 1939 vegna þessa byggðastuðnings. Síðar stofnaði Stanford klasa þar sem frumkvöðlar gátu leigt iðnaðarhúsnæði fyrir mjög lágt gjald. Saga dalsins hefur síðan verið á allra vörum.
Öflugt starf styrkt enn frekar
Af hverju nefni ég þetta? Vegna þess að spáð hefur verið að gagnavinnsla, hugbúnaðarþróun, gervigreind, stafræn hönnun og þróun verði í hópi þess iðnaðar sem vex mest á þessu ári í heiminum. Við hér í Suðurkjördæmi búum svo sannarlega yfir miklum mannauði, tækni, og sprotum sem glætt hafa atvinnulífið og þessir sprotar gætu blómstrað enn frekar.
Fyrir eru á fæti t.d. Keilir sem bauð fyrir tveimur árum í fyrsta sinn upp á námsbraut í tölvuleikjagerð til stúdentsprófs. Um eitt hundrað nemendur sóttu um, aðeins helmingur nemenda komst að. Þetta starf þarf að efla. Við Keili er nú þegar hægt að taka BS gráðu í tölvuleikjagerð í samstarfi við norska skólann Noroff, þar er starfrækt flugakademía, íþróttaakademía, menntaskóli, Háskólabrú og boðið upp á nám í leikskólafræðum. Keilir er öflugur, framsækinn og metnaðarfullur skóli sem á skilið öflugan og metnaðarfullan stuðning. Ég vil beita mér enn frekar fyrir styrkingu skólans svo hann verði nærsamfélaginu og heiminum aukinn fengur.
Stafrænnn heimur hin nýja stóriðja
Með sama hætti og Kísildalurinn varð til vegna byggðalegrar framsýni og einstaklingsframtaks manna eins og Hewlett og Packard gæti Ásbrú eflst og orðið hreiður hátækni, orðið okkar íslenski Kísildalur, miðstöð sérhæfingar í hugbúnaði, hátækni, gervigreind, gagnavinnslu og tölvuleikjagerð. Það er ótúlegt en satt en tölvuleikir eru orðnir stærri en kvikmynda-, íþrótta og tónlistargeirarnir til samans. Bara hér á landi starfa á fjórða hundrað manns nú þegar við tölvuleikjagerð. Eins og ein stóriðja!
Tækifæri okkar til vaxtar í þessum geira eru gríðarleg. Við þurfum hér eftir sem hingað til að sýna frumkvæði, djörfung og pólitískan vilja.
Guðrún Hafsteinsdóttir
Frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins
Greinin birtist fyrst í blaði Víkurfrétta
Comments