top of page

Miðhálendisþjóðgarður? Nei, takk!

Updated: Sep 17, 2021

Fólk á förnum vegi í Suðurkjördæmi víkur gjarnan tali að frumvarpi um miðhálendisþjóðgarð og þjóðgarðsstofnun, sem umhverfisráðherra vill ólmur lögfesta fyrir lok kjörtímabilsins, og spyr um afstöðu mína til málsins.


Svarið er skýrt, ég er algjörlega andvíg áformum um að búa til þetta stjórnsýslubákn sem ætlað er að fara með forræði alls miðhálendisins. Við erum að tala um ríkisstofnun sem á að stjórna umferð og aðgerðum á hátt í 40% flatarmáls Íslands, hvorki meira né minna!


Einn af aðstandendum ferðaþjónustunnar í Kerlingarfjöllum vakti athygli á því á dögunum að þar hefðu eigendur og starfsfólks rekstrarins varið þúsundum vinnustunda við umhverfis- og náttúruvernd á svæðinu með því að tína rusl, leggja og merkja göngustíga og göngubrýr, lagfæra sár eftir utanvegaakstur og svo framvegis.

Nú skal frumkvæðið tekið af þeim sem sinnt hafa þarna landverndarverkefnum að eigin frumkvæði og á sinn kostnað og forræði mála flutt suður. Er einhver glóra í því?


Þegar betur er að gáð er áformum um miðhálendisþjóðgarð greinilega stefnt gegn möguleikum í framtíðinni til að virkja frekar vatnsafl á hálendinu til raforkuframleiðslu. Ef litið er til orkuskipta og spár um mannfjöldaþróun næstu þriggja áratuga má gera ráð fyrir því að tvöfalda þurfi raforkuframleiðsluna til að komandi kynslóðir búi við hliðstæð lífsgæði og okkur þykja sjálfsögð nú.

Nær fjórðungur útflutningstekna landsmanna byggist á því að nýta græna orku, aflið í vatninu. Eigum við að hafa vit fyrir þeim sem landið byggja að okkur gengnum og ákveða fyrir þeirra hönd að nóg sé komið af því að beisla orku fallvatna? Auðvitað ekki.


Sporin hræða. Ýmsum brá eðlilega í brún þegar Vatnajökulsþjóðgarður tók upp á því að skerða almannarétt með því að takmarka aðgengi að Vonarskarði. Nú er talað um að þjóðgarður á hálendinu öllu muni höfða til ferðafólks en samt fylgir ekki sögu hvernig eigi að standa að ferðaþjónustu á svæðinu. Það eru ekki mörg orð um rekstur og rekstraraðila í frumvarpstextanum!

Vert er að hafa líka í huga að þeir sem harðast ganga fram í baráttu fyrir miðhálendisþjóðgarði hafa lagst gegn því árum saman að stofnvegir á hálendinu séu lagfærðir þannig að teljast megi ökuhæfir að sumarlagi.


Kjarni máls er sá að sjálf umsýsla miðhálendisins er í góðu lagi og ekki vitað til þess að þar séu slík vandamál uppi að kalli á miðstýringu og tilheyrandi stofnanabákn. Forræðinu er áfram best fyrir komið hjá sveitarstjórnendum, bændum og fyrirtækjum sem hagsmuni hafa af því að ástand hálendisins sé í jafnvægi.


Hugmyndir um þjóðgarðsstofnun falla hins vegar vel að pólitískum hugarheimi fólks sem nærist mest og best á forræðishyggju af öllu tagi en það er önnur saga. Ég er mjög langt frá slíkri hugsun í tilverunni.


Eflum Suðurkjördæmi!


Guðrún Hafsteinsdóttir

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

bottom of page