top of page

Ögurstund í kjörklefanum

Stundarkornið á kjörstað hverju sinni vekur með kjósandanum jafnan sérstakar tilfinningar og hefur meiri og víðtækari áhrif en marga grunar. Hvert atkvæði skiptir máli og það á ekki síst við nú þegar boðið er upp á fjölda framboða með tilheyrandi ferðalagi út í pólitíska óvissu handan kosninga.


Kjósendur vita hins vegar hvar þeir hafa Sjálfstæðisflokkinn og þeim mun fleiri sem leggja okkur lið á laugardaginn kemur þeim mun minni óvissa í framhaldinu.


Það eru forréttindi að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í kosningabaráttu undanfarnar vikur. Að skynja traust og þakklæti fólks á förnum vegi í garð forystusveitar sjálfstæðismanna og stjórnvalda fyrir öruggt taumhald á erfiðum tímum heimsfaraldurs og að tekist hafi á sama tíma að viðhalda stöðugleika og stuðla að hraðari bata í efnahags- og atvinnulífi eftir Covid-dýfuna.


Okkur hefur auðnast að grípa mörg tækifæri og vinna úr þeim landi og þjóð til heilla. Það ætlum við sannarlega að gera áfram því yfirskrift kosningabaráttu okkar sjálfstæðismanna, „land tækifæranna“, er aldeilis ekki orðin tóm heldur staðreynd og innihaldsríkur vegvísir til næstu framtíðar og áfram.


Sjálfstæðisflokkurinn er eina stjórnmálaaflið sem hefur birt raunhæfa áætlun um að draga úr losun koltvísýrings – CO2 – með það að markmiði að notkun jarðefnaeldsneytis ljúki á Íslandi áður en árið 2040 gengur í garð. Við eigum ekki að setja markið lægra en svo að Íslendingar verði í forystu í veröldinni að þessu leyti. Ísland flytji bæði út rafeldsneyti og þekkingu á því að hreinsa andrúmsloftið í orðsins fyllstu merkingu. Þar vísa ég til einstakrar hreinsistöðvar sem tekur við útblæstri frá Hellisheiðarvirkjun sem aðskilur brennisteinsvetni og koltvísýring og dælir niður í jörðina til að binda efnin þar við berglög á 1.000-2.000 metra dýpi.


Við eigum gott heilbrigðiskerfi sem hægt er að gera enn betra. Þar bíða áskoranir sem teljast ekki vandamál heldur verkefni til að vinna að og leysa. Fólk sem leitar eftir grunnheilbrigðisþjónustu langar leiðir á auðvitað rétt á heilsugæslu í heimabyggð. Aukið samstarf ríkisstofnana og einkafyrirtækja í heilbrigðiskerfinu ætti að vera sjálfgefið og auðvitað eigum við ekki að senda fólk úr landi í liðskiptaaðgerðir sem íslenskir læknar geta annast. Hvaða vit er í því þegar hægt er að framkvæma slíkar aðgerðir hérlendis fyrir mun færri krónur?


Sjálfstæðisflokkurinn er og verður kjölfesta í samfélaginu sem kjósendur geta treyst að taki hvorki þátt í pólitískri ævintýramennsku né kollsteypum sem sum framboð beinlínis lofa nú að verði að veruleika fái þau valdatauma í hendur á næsta kjörtímabili.


Það dylst engum sem fylgist með málflutningi vinstriflokkanna þessa dagana að þá dreymir fyrst og síðast um að hækka skatta og gjöld af ýmsu tagi. Hugur okkar sjálfstæðismanna stendur til að fara í þveröfuga átt og lækka álögur á fólk og fyrirtæki, halda niðri vöxtum og verðbólgu og auka enn frekar ráðstöfunartekjur heimilanna, sem vel að merkja hafa aukist mikið vegna efnahagslega stöðugleikans.


Þetta bið ég kjósendur að hafa í huga þegar þeir eru einir með sjálfum sér í kjörklefanum.


Guðrún Hafsteinsdóttir, oddiviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 24. september 2021

Comments


bottom of page