top of page

Takk fyrir stuðninginn!

Nú að afloknu velheppnuðu prófkjöri Sjálfstæðismanna hér í Suðurkjördæmi er mér bæði ljúft og skylt að þakka öllum þeim sem tóku þátt í prófkjörinu kærlega fyrir stuðninginn.


Það var sérstaklega ánægjulegt að kjörsóknin var meiri en í síðasta prófkjöri eða tæplega 4.700 manns. Við frambjóðendur erum afskaplega þakklát fyrir stuðning og hvatningu og höfum fengið dýrmætt veganesti í sjálfa kosningabaráttuna.


Suðurkjördæmi er á margan hátt sérstakt. Það er víðfeðmt og í fljótu bragði getur maður spurt sig hvað fólk eigi til að mynda sameiginlegt á Kirkjubæjarklaustri og í Reykjanesbæ? En þegar betur er að gáð þá eigum við marga sameiginlega snertifleti.


Fyrst ber að nefna aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Við eigum öll rétt á sambærilegri heilbrigðisþjónustu hvar sem við búum í landinu. Því miður er það ekki raunin og fyrir því viljum viljum við Sjálfstæðismenn berjast.


Atvinnumál eigum við sameiginleg. Öll finnum við fyrir því að við þurfum fleiri stoðir í atvinnulífið hvar svo sem við búum. Við viljum forðast einhæfni og þurfum fjölbreyttari störf, verðmætari störf. Við Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi berjumst fyrir öflugra atvinnulífi.


Samgöngur er svo þriðja sviðið sem við eigum sameiginlegt. Samgöngur verða að vera öruggar og góðar hvar sem er í Suðurkjördæmi. Öðruvísi dafnar hvorki mannlíf né atvinnulíf sem skyldi.


Mennta- og menningarmálin eru okkur sömuleiðis hugleikin. Við viljum sjá öflugar menntastofnanir og að börnin okkar eigi jafnan rétt til náms og þroska óháð búsetu.


Sá sem tekur þátt í prófkjöri stjórnmálaflokks kynnist samfélagi sínu á nýjan hátt og er mikilli reynslu ríkari að leik loknum. Við frambjóðendur þökkum öllum þeim sem tóku á móti okkur, gáfu okkur af dýrmætum tíma sínum og leyfðu okkur að skyggnast inn í tilveru sína. Fyrir fólk sem ætlar að starfa í almannaþágu er ekkert dýrmætara en einmitt það að fá tækifæri til að hitta fólk og ræða málin. Því samtali er hvergi nærri lokið.


Nú horfum við fram á veg full bjartsýni og eftirvæntingar með það eitt að leiðarljósi að láta gott af sér leiða. Sjálfstæðisflokkurinn er skýr kostur þeirra í komandi alþingiskosningum sem vilja byggja íslenskt samfélag á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta að leiðarljósi. Við fylgjum stefnu sem á traustar rætur í mannréttindum, jafnræði, frelsi og ábyrgð einstaklingsins.


Við göngum full tilhlökkunar til kosninga í haust.


Guðrún Hafsteinsdóttir,

oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi.

Comments


bottom of page